Lífshættir og hjartasjúkdómarHjarta- og æðasjúkdómar eru algengir á Íslandi eins og í mörgum öðrum löndum. Að einhverju leyti stafar þetta af aukinni lífslengd, en hjarta- og æðakerfi verða fyrir barðinu á æðakölkunar-sjúkdómum á efri árum einstaklingsins. Stundum eru þessir sjúkdómar því miður ótímabærir; þeir koma á miðjum aldri eða jafnvel fyrr, þegar líkaminn er að öðru leyti alls ekki hrörnaður.

Æðakölkunarsjúkdómurinn kallast kransæðasjúkdómur þegar hann leggst á slagæðar hjartans. Orsakir sjúkdómsferlisins eru flóknar og ekki að fullu útskýrðar. Greinilegt samspil er þó milli arfgerðar einstaklingsins og umhverfisþátta og þar skipta lífshættir miklu máli. Með lífsháttum er átt við ýmis konar hegðun okkar í amstri hversdagslífsins. Þar koma við sögu sálrænir þættir, svefnvenjur, hvíld, atvinna, næring, hreyfing, útivera og ýmsar venjur og óvenjur sem skipta mismiklu máli. Enda þótt ekki séu öll kurl komin til grafar um áhættu- og orsakaþætti æðasjúkdóma er enginn vafi talinn leika á því að lífsvenjur skipta miklu máli. Einnig bendir margt til þess að seinka megi tilurð æðasjúkdómsferlisins, breyta gangi þess eða jafnvel koma í veg fyrir það með því að breyta lífsháttum.

Helstu viðurkenndir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma: • Reykingar
 • Blóðfituhækkun / blóðfitutruflun
 • Hækkaður blóðþrýstingur
 • Offita - sérstaklega brjóst- og kviðfita
 • Veiklað sykurþol / sykursýki
 • Hreyfingarleysi / kyrrseta
 • Streita
 • Arfgerð

Stundum virðast engir áhættuþættir vera til staðar og er því líklegt að óþekktir þættir séu á ferðinni, sem við munum fá skýringar á þegar fram líða stundir.

Vanþjálfun, hreyfingarleysi, ofnæring, streita .....Oft safnast fleiri áhættuþættir saman og geta verið erfiðir viðureignar. Nauðsynlegt er að gera skipulega árás á þá á breiðum grundvelli. Til þess að það megi takast þarf að gera meiri háttar breytingar á lífsháttum. Það er hins vegar ljóst að erfitt er að koma á varanlegum breytingum í þessum efnum. Breytingin getur verið óþægileg í augnablikinu og ávinningur gæti virst síðkominn. Lífshættir eiga sér djúpar rætur í lífi einstaklingsins og oft í menningu samtímans og hvatning til að breyta þeim er stundum óljós. Ljóst er þó að leggja ber áherslu á að einstaklingurinn ber ábyrgð á eigin heilsu og að veita honum tilhlýðilega fræðslu og hvatningu til nauðsynlegra breytinga. Takist að breyta lífsstílnum verður að fylgja breytingunni eftir og stuðla að því að hún verði til langframa.

Lífshættir nútímafólks einkennast mjög af vanþjálfun eða hreyfingarleysi, ofnæringu og streitu. Aðrir vel þekktir og betur viðurkenndir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru reykingar, hækkuð blóðfita og hækkaður blóðþrýstingur. Reykingar eru gríðarlegur áhættuþáttur alvarlegra sjúkdóma, svo sem lungnakrabbameins, langvinnra lungna-sjúkdóma og hjarta- og æðasjúkdóma. Kyrrseta, ofnæring og offita geta einnig leitt til veiklaðs sykurþols og fullorðins sykursýki. Streita og hraði sem og andleg og félagsleg einangrun kynda undir ýmsum sjúkdómsferlum.

Þegar fleiri áhættuþættir hafa safnast saman er samnefnari oftast aukin kviðfita eða söfnun fitunnar á brjóst og kvið. Slíkir einstaklingar hneigjast oft til kyrrsetu og eru tregir til líkamsþjálfunar. Hjá þeim hækkar insulín í blóði og blóðfita og blóðþrýstingur fara hækkandi. Smám saman veiklast sykurþolið þar sem vöðva- og fitufrumur þeirra verða tiltölulega ónæmar fyrir verkun insulíns og eyjafrumur briskirtilsins hafa nú ekki undan að framleiða allt það insulín sem þarf til að koma sykrinum inn í vöðva- eða fitufrumurnar.

Talið er að samband kunni að vera á milli þessarar samsöfnunar áhættuþátta og truflunar á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins og líklegt er að streita geti verið mikilvægur þáttur þessa flókna samspils. Einnig virðist sem samsetning vöðvaþráða í þverrákóttum vöðvum þessara einstaklinga sé með nokkuð örðum hætti en hjá þeim sem eru grannir og vel þjálfaðir. Hluti vöðvaþráða hinna of feitu og vanþjálfuðu fá minna blóðflæði og hafa aukna insulínmótstöðu. Einnig gætir aukinnar tilhneigingar til blóðstorknunar. Segja má að í kviðfitunni búi tímasprengja sem getur gert vart við sig með óvæntum og óþægilegum hætti, til dæmis skyndilegu hjartaáfalli eða jafnvel skyndidauða langt um aldur fram.

LangtímamarkmiðOft er unnt að snúa til betri vegar mörgum þeim áhættuþáttum sem fjallað hefur verið um. Helstu aðferðir sem að haldi geta komið eru sem hér segir:

 • Áframhaldandi hvatning til reykbindindis
 • Stefnt að því að komast sem næst kjörþyngd
 • Breyting mataræðis til að lækka blóðfituna
 • Fylgjast þarf með blóðþrýstingi og sjá til þess að hann hækki ekki um of
 • Mikilvægt er að minnka saltneyslu
 • Þurft getur að beita lyfjameðferð til að halda blóðþrýstingi og blóðfitu í skefjum
 • Barátta gegn kyrrsetu og hvatning til að hefja reglubundna líkamsþjálfun
 • Nauðsynlegt er að vinna gegn streitu með því að stunda slökun og íhugun

Fyrir kemur að fólk fái hjarta- eða æðasjúkdóm án þess að áberandi áhættuþættir virðist hafa verið til staðar. Þetta bendir til þess að vitneskja okkar um orsakir þessara sjúkdóma sé enn nokkuð ábótavant. Full nauðsyn er á að fylgjast vel með í þessum efnum og bregðast skynsamlega við nýjum áhættuþáttum þegar mikilvægi þeirra hefur verið rannsakað og skýrt. Þannig bendir ýmislegt til þess að viðbrögð líkamans við sumum sýkingum geti flýtt fyrir æðaskemmdum, en einnig hafa verið nefndir þættir tengdir geðslagi. Því hefur verið haldið fram að loftslag, birta og/eða breiddargráða búsetu geti skipt máli sem áhrifavaldar æðasjúkdóms. Um þetta er þó frekar lítið vitað enn sem komið er og gæta ber þess að láta slíkar bollaleggingar ekki slá ryki í augu svo að við sofnum á verðinum gagnvart þeim áhættuþáttum sem vel eru þekktir.

Allt of margir eru of feitir, of margir reykja og hreyfa sig of lítið, eru hlaðnir streitu og öðrum þekktum áhættuþáttum hjartasjúkdómsins. Koma þarf réttum skilaboðum til þessara einstaklinga og leiðbeina þeim um það hvernig þeir geti hjálpað sér sjálfir til að vinna gegn þróun í átt til hjartasjúkdóma.

Hér er mikið verk fyrir höndum og nauðsynlegt að skerpa vopnin og finna öflug ráð til að ná fram langtímabreytingum á óheppilegum lífsháttum. Með því skapast möguleikar til að minnka verulega byrði hjarta- og æðasjúkdóma fyrir þjóðfélagið og þegnana.

Unnið af Þorkeli Guðbrandssyni yfirlækni á HL stöðinni 2003