Hvers vegna þjálfun fyrir hjarta og lungnasjúklinga?
Reglubundin þjálfun dregur úr æðakölkun, bætir blóðflæði og lækkar blóðþrýsting. Hún styrkir hjartavöðvann og minnkar orkuþörf hans við álag.
Reglubundin þjálfun eykur afkastagetu og færni til daglegra athafna batnar
Þjálfun dregur úr einkennum frá öndunarfærum, sérstaklega mæði, auk þess sem hreyfing opnar loftvegi og stuðlar að hreinsun þeirra. Reglubundin þjálfun þeirra, sem hafa fengið hjartaáfall, farið í aðgerð eða víkkun, dregur úr líkum á endurteknu áfalli eða að æðar þrengjast aftur. Þjálfun í hópi fólks með svipuð vandamál gefur stuðning og samkennd sem bætir andlega líðan.
Hjartaendurhæfingu er skipt í þrjú stig
Stig I fer fram inni á sjúkradeildum.
Stig II, grunnþjálfun, hefst 2-8 vikum eftir hjartaáfall eða hjartaaðgerð og tekur að jafnaði 8 vikur.
Stig III er framhaldsþjálfun sem tekur við af stigi II.

Uppbygging þjálfunar Áður en þjálfun hefst er framkvæmt áreynslupróf.
Þjálfunaráætlun er byggð á niðurstöðum prófsins.
Þjálfunartímar eru tvisvar til þrisvar í viku, eina klukkustund í senn undir eftirliti og stjórn sjúkraþjálfara.
Þátttakendum er skipt í hópa eftir getu hvers og eins. Læknir er ávallt á staðnum.
Hver tími skiptist í upphitun, þjálfun á hjólum, ýmsar æfingar, teygjur og slökun.
Á stigi II er fylgst með hjartslætti á skjá eftir þörfum.
Fylgst er með blóðþrýstingi, púls og súrefnismettun eftir þörfum, inná
Doktor.is er grein um blóðþrýsting meðan þjálfað er.
Fylgst er með líkamsþyngd.
Súrefnisgjöf er notuð þegar súrefnisskortur mælist.